Áherslurnar

  • Ég hef verið mjög ákveðin í mínum málflutningi um þær áherslur sem mér þykja skipta máli. Það er þannig að enginn málaflokkur stendur einn í einhverju tómarúmi, málin tengjast og skarast á milli málaflokka. Þannig eru byggðamál samfléttuð atvinnuuppbyggingu og samgöngum. Jafnréttið og umhverfisverndin á að vera yfir og allt um kring í okkar ákvarðanatöku.

  • Byggðamál

Á víðfeðmu en strjálbýlu landi eins og Íslandi skiptir sköpum að þétt sé haldið utan um byggðamál. Landsbyggðin hefur þurft að takast á við breytta samfélagsmynd og ótal áskoranir í kringum hana. Það er víða pottur brotinn og fólk á landsbyggðinni stendur síður en svo jafnfætis þegar kemur að þjónustu. Það má segja undir „byggðamál” falli nánast allt milli himins og jarðar. Samgöngur, heilbrigðisþjónusta, atvinnumál og ótal margt annað.

Ég hef lagt áherslu á mikilvægi þess að ríkisstofnanir auglýsi störf án staðsetningar. Ef Covid hefur kennt okkur eitthvað þá er það sú staðreynd að við þurfum ekki alltaf að vera stödd í sama rými til að vinna verkin og taka ákvarðanirnar.

Forsenda þess að fólk úr öllum stéttum geti valið búsetu á landsbyggðinni er að bjóða öfluga leik- og grunnskóla, boðlegan húsnæðismarkað og byggingarlóðir fyrir íbúðar- og atvinnuhúsnæði. Þannig spila ótal þættir saman sem ég hef þurft að takast á við beggja vegna borðs bæði sem sveitarstjórnarfulltrúi en ekki síður sem kona með stóra fjölskyldu sem valdi að lifa á landsbyggðinni.  

  • Umhverfismál

Umhverfismál er risastór málaflokkur sem spannar ólík svið. Við erum sem betur fer flest orðin meðvituð um mikilvægi þess að ganga betur um umhverfið okkar því í stóra samhenginu erum við bara öll með eitt póstnúmer JÖRÐ. Mikilvægi ólíkra nálgana og aðferða við verndun umhverfis er stærsta viðfangsefni mannkyns í dag.

Minni kolefnislosun, endurheimt votlendis, metnaðarfull stefna í loftslags- og náttúruverndarmálum eru verkefni sem ég trúi á og legg mig fram við að styðja í hvívetna. Öll getum við stutt við málaflokkinn með ábyrgri neyslu og minni sóun, taka þátt í hringrásarhagkerfinu, flokka og skila og velja almenningssamgöngur í stað einkabíls þar sem þess er kostur.

Metnaðarfullar aðgerðir í loftslagsmálum eru undirstaða þess að markmiðum sé náð. Nú hefur Ísland uppfært markmið sem kveður á um 55% samdrátt í losun gróðarhúsalofttegunda fyrir 2030 í samfloti með Noregi og ESB. Aðgerðir verða efldar í kolefnisbindingu og landnotkun til að ná markmiði Íslands um kolefnishlutleysi 2040 og áfangamarkmiði um kolefnishlutleysi losunar á beinni ábyrgð íslenskra stjórnvalda í kringum 2030. Einnig er aukin áhersla á loftslagstengd þróunarverkefni á Íslandi.

 Ein dýrmætasta auðlind okkar er íslensk náttúra sem aldrei hefur verið mikilvægara að standa vörð um með því t.d. að vernda ósnortin víðerni. Við megum ekki missa frá okkur stærri hluta af óbyggðum Íslands en orðið er. Þannig getum við bæði notið landsins gæða og haft af því hagrænan ávinning og stutt við byggðir landsins m.a. með fjölgun starfa. Ég tel þessum markmiðum best náð með Miðhálendisþjóðgarði.

Ég hef talsverða reynslu af því að vinna að umhverfismálum. Ég lauk meistaranámi í lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík árið 2013 þar sem ég sérhæfði mig í loftslagsmálum og skrifaði MA ritgerð um Viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir (ETS). Að námi loknu vann ég um tíma sem lögfræðingur loftslagsmála hjá Umhverfisstofnun.

  • Jafnrétti

Ég nýti hvert tækifæri til að tala fyrir jafnrétti í sinni víðustu mynd. Heimsmynd okkar grundvallast af kynjakerfi sem lýsir sér í fyrirfram gefnum hugmyndum um tvíhyggju þar sem einstaklingum er raðað upp eftir mikilvægi út frá kyni. Þannig er meira en helmingi mannkyns haldið niðri kerfisbundið og hefur aldrei sömu tækifæri og hinn forréttinda hópurinn. Ég trúi því að jafnrétti allra kynja leggi grunn að betra samfélagi.

En það er ekki nóg að vera af „réttu” kyni, mismunun samfélagsins á sér ótal birtingamyndir. Fatlað fólk, fólk af erlendum uppruna, fátækt fólk, eldra fólk, yngra fólk og hinssegin fólk eru aðeins hluti þeirra hópa sem jaðarsettir eru í samfélaginu. Hver manneskja getur svo fallið innan nokkurra flokka sem gerir viðkomandi enn erfiðara fyrir að komast af fjárhagslega og félagslega. Það er vitlaust gefið og þessu er mikilvægt að breyta til þess að jafna stöðu fólks. Ég hef tekið virkan þátt í jafnréttisbaráttunni í gegnum árin. Er stofnfélagi og formaður félagsins Hinsegin Austurland, sit í trúnaðarráði Samtakanna 78, er stofnfélagi í Rótinni – félag um konur, áföll og vímugjafa, auk þess sem ég hef skrifað fjölda greina um jafnréttismál.

  • Samgöngumál

 Öruggar og traustar samgöngur eru lífæðar samfélagsins okkar. Hvort einstaklingar geti sótt verslun og þjónustu er það sem heldur byggðarlögum gangandi. Margt hefur breyst til batnaðar en við eigum langt í land.

Ég hef verið talskona Axarvegar og Fjarðarheiðaganga og tel afar mikilvægt að íbúar geti ferðast með öruggum hætti innan sveitarfélaga sinna. Margir áfangasigrar hafa náðst á Norðurlandi en betur má ef duga skal og mikilvægt að ljúka við Dettifossveg og Langanesströnd svo eitthvað sé nefnt.

Verkefnin eru mörg og ærin um land allt og mikilvægt að áhersla sé á að leysa úr bráða vanda við allra fyrsta tækifæri. Mikilvægt er að auka fjármagn til málaflokksins svo hægt sé að sinna t.d. vetrarþjónustu af meiri metnaði. Almenningssamgöngur þarf að efla og gefa íbúum landsins raunhæft val um bíllausan lífstíl með öryggi og umhverfisvernd að leiðarljósi.

  • Atvinnumál

Fjörbreytt atvinnulíf er lykillinn að öflugu velferðarsamfélagi. Það er gríðarlega mikilvægt að við forðumst það að setja öll eggin í sömu körfu og treysta á fáar atvinnugreinar til að standa undir rekstri þjóðarbúsins.

Við eigum okkar grunnstoðir sem þróast og breytast gegnum árin. Landbúnaður, sjávarútvegur, ferðaþjónusta, iðnaður, menning. Allar þessar greinar þurfa á nýsköpun og sjálfbærni að halda til þess að geta áfram blómstarð inn í framtíðina. Markaðir breytast, eftirspurn og framboð fer upp og niður og því er svo mikilvægt að margar hendur grípi bolta þegar harðna fer í ári.

Fjölbreytni í atvinnulífi er grundvöllur þess að ekki verði eins alvarlegar afleiðingar ef ein grein glímir við erfiðleika, mikilvægi þess má okkur vera ljóst í kjörlfar áhrifa Covid 19 á ferðaþjónustuna.

Við eigum að huga betur að fullvinnslu matvæla og styðja við margskonar ræktun og sjálfbæra matvælastefnu. Auðlindirnar eiga að vera eign þjóðarinnar og nýting þeirra sjálfbær og arður þeirra að renna til samfélagslegrar uppbyggingar en ekki til erlendra fjárfesta.  

Scroll to Top