Ákall eftir samráði um skipulagsmál í Múlaþingi

Höfundur: Jódís Skúladóttir • Skrifað: 19. mars 2021.Skipulagsmál eru ein mikilvægasta stoðin fyrir velferð sveitarfélaga. Það er allt undir, íbúðarhúsnæði, fyrirtækjarekstur, lýðheilsa íbúa og öryggi. Í Múlaþingi bíða ærin verkefni við að ná utan um skipulagsmál gömlu sveitarfélaganna sem sameinuðust í haust.

Mikill húsnæðisskortur er í Múlaþingi og það í öllum kjörnum. Hamfarirnar í desember gerðu stöðuna, sem var flókin fyrir, enn snúnari á Seyðisfirði. Á Djúpavogi er eftirspurn eftir atvinnulóðum en á meðan beðið er eftir skipulagi slíkra lóða tefst uppbygging á svæðinu.

Á Héraði og Borgarfirði er sama staðan uppi á teningnum, bæði hvað varðar íbúðar- og atvinnuhúsnæði. Mikilvægt er að hefja vinnu við aðalskipulag sveitarfélagsins við fyrsta tækifæri með víðtæku samráði við íbúa svo að tryggja megi lóðaframboð íbúðarhúsnæðis og að stjórnsýslan hægi ekki á hjólum atvinnulífsins og uppbyggingu í okkar góða samfélag.

Ein aðalforsenda þess að af sameiningu varð var tilkoma heimastjórna, fólki var mikið í mun að skipulagsvaldið haldist heima í héraði og að íbúar hvers kjarna hefðu um það að segja hvernig væri forgangsraðað og hlúð að nærsamfélaginu.

Það hafa verið talsverðir misbrestir á ferlum skipulagsmála eftir sameiningu og í ljósi þess hve víðfeðmt sveitarfélagið er og mörg og þung verkefni hafa lent inn á borð á fyrstu misserum er það svo sem ekki skrítið. En á einhverjum tímapunkti verður að girða í brók og gera betur. Það er óásættanlegt að mál rekist vikum og mánuðum saman í einhverju óljósu ferli innan stjórnsýslunnar. Það er dýrt bæði fyrir sveitarfélagið og þá einstaklinga og fyrirtæki sem bíða í óvissu með framkvæmdir á meðan mál þeirra þvælast milli stoppistöðva Múlaþings.

Sú sem þetta skrifar kom ný inn á hinn pólitíska vettvang á síðasta ári, er formaður heimastjórnar á Djúpavogi, sveitarstjórnarfulltrúi, situr í fjölskylduráði og sem áheyrnarfulltrúi í byggðaráði. Af þeirri ástæðu, hve reynslulítil ég er, rennur mér blóðið til skyldunnar að setja mig vel inn í öll mál og treysta því að við séum öll að vinna að hag íbúanna.

Í aðdraganda kosninga fóru þau sem nú sitja í meirihluta mikinn um mikilvægi reynslu sinnar af sveitarstjórnarstörfum. Ekki virðist þeirra dýrmæta reynsla vera að nýtast sem skyldi í skipulagsmálum og því er það jafn brýnt fyrir bæði eldri og nýrri fulltrúa að farið verði vel yfir ferla og málum komið í þann farveg að ekki tapist tími og peningar vegna slakrar stjórnsýslu. Meginregla stjórnsýslulaga um leiðbeiningarskyldu stjórnvalds sem finna má í 7. gr laganna tekur af allan vafa um að sveitarfélaginu ber að leiðbeina og koma þeim erindum sem berast frá íbúum í réttan farveg, en það er ekki upplifun sumra sem hyggja á framkvæmdir í sveitarfélaginu.

Skipulagsmál eru flókin en það má einfalda ferlið ef vilji er fyrir því. Hitaveitan kemur að skipulagsmálum þar sem hún hefur nú tekið yfir alla veitustarfsemi sveitarfélagsins, Umhverfis- og framkvæmdaráð fjallar um málin og á að koma þeim í farveg og heimastjórnir hefja og samþykkja deiliskipulagsbreytingar en einnig koma breytingar á aðalskipulagi til umfjöllunar hjá heimastjórnum þar sem mál falla undir þeirra svæði. Það hefur verið ævintýralegt að fylgjast með málum, sem í eðli sínu ættu að vera einföld, tefjast úr hófi fram vegna hnökra á okkar innra skipulagi. Blásið hefur verið til aukafunda með tilheyrandi kostnaði til að afgreiða mál sem hafa verið komin óefni.

Ég hef nú þrjá mánuði kallað eftir því að samráðsfundur verði haldinn þar sem koma að borðinu formenn heimstjórna, kjörnir fulltrúar og sviðstjórar fagsviða sveitarfélagsins svo og Hitaveitan og aðrir sem aðkomu hafa að skipulagsmálum. Sambærilegt erindi hefur líka komið inn á borð byggðaráðs frá öðrum og var erindinu vek tekið en ekki hefur heyrst meira af því. Slíkur fundur yrði til þess að allir aðilar yrðu betur upplýstir og að hvergi þyrftu mál að stoppa hjá stjórnsýslu sveitarfélagsins og þar með tefja uppbyggingu í Múlaþingi.

Ég hvet meirihluta sveitarstjórnar til að taka af ábyrgð á málum, laga þessa ferla, halda samráðsfund og koma skipulagsmálum í lag.

Höfundur er fulltrúi Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í sveitarstjórn Múlaþings

https://www.austurfrett.is/umraedan/akall-eftir-samradhi-um-skipulagsmal-i-mulathingi
Scroll to Top