Frétt í Vikublaðinu

22. janúar, 2021 – 09:51Þröstur Ernir Viðarsson – throstur@vikubladid.is

SÆKIST EFTIR 2. SÆTI Á LISTA VG

Jódís Skúladóttir, lögfræðingur og oddviti VG í Múlaþingi, hefur ákveðið að gefa kost á sé í 2. sæti á lista Vinstri grænna í Norðausturkjördæmi. Jódís tilkynnir þetta á Facebooksíðu sinni.

„Eftir framúrskarandi samstarf við mitt fólk í Múlaþingi undanfarið ár og þann góða stuðning sem ég hef fundið úr samfélaginu undanfarin misseri var ákvörðunin auðveld. Reynsla mín úr stjórnsýslunni er víðtæk og innkoma mín í stjórnmál á sveitarstjórnarstigi hefur verið afar ánægjuleg. Ég hef trú á því að ég sé að svara kalli um ferska vinda, nýliðun og sterka rödd fyrir allt kjördæmið og landið allt.

Málefnin eru númer eitt og hef ég lagt mig fram við að standa vörð um þau. Jafnrétti, umhverfisvernd, sjálfbærni og nýsköpun svo fátt eitt sé nefnt. Ég hlakka til að takast á við næstu vikur, fylgja sannfæringu minni og köllun hjartans og vinna fyrir fólk úr öllum stigum samfélagsins að okkar góðu málefnum,“ skrifar Jódís.

Scroll to Top