Hinsegin málefni

Greinin birtist í Austurfrétt. Höfundur: Jódís Skúladóttir • Skrifað: 12. nóvember 2019.

Nýverið voru þættirnir Svona fólk sýndir á RÚV og hlutu mikla athygli. Þættirnir fjalla um sögu homma og lesbía á Íslandi og réttindabaráttu undangenginna áratuga. Á þessum tíma hefur samfélagið svo sannarlega breyst til hins betra og við stefnum í rétta átt þó enn séu hópar hinsegin fólks komnir mun skemur á veg í sinni baráttu en hommar og lesbíur.

Við þurfum að vera meðvituð um þann raunveruleika að við stöndum ekki öll jafnfætis í samfélaginu og það er undir nærsamfélaginu komið að skapa öllum íbúum sómasamleg lífsskilyrði. Aldrei megum við sofna á verðinum og áætla að þau réttindi sem eru í höfn hafi komið átakalaust og séu meitluð í stein þannig að nú sé hægt að stoppa og njóta ávaxtanna. Sagan kennir okkur að á einu augnabliki getum við misst allt út úr höndunum. Það er því mikilvægt að við höfum vettvang í okkar nærsamfélagi þar sem við, sem hinsegin fólk, getum sameinast.

Uggvænlegt afturhvarf

Á millistríðsárunum stóð menningarlíf hinsegin fólks í Evrópu í miklum blóma. Engan hefði getað grunað að innan fárra ára myndi hinsegin fólk vera meðal þeirra sem fylltu fangabúðir nasista. Árið 2019 getur það samt varðað dauðadómi í einhverjum löndum að elska ranga manneskju. Þann 26. júlí síðastliðinn sáu Samtökin ‘78 og Hinsegin dagar sig knúin til að skora á utanríkisráðherra Íslands, Guðlaug Þór Þórðarson, og ríkisstjórnina alla að fordæma hatursáróður pólskra stjórnvalda gegn hinsegin fólki og hvetja þau til þess að hverfa frá þeirri fjandsamlegu stefnu sem þau hafa markað sér. Hinsegin fólk í Póllandi óttast raunverulega um líf sitt. Eins er uppgangur popúlisma í Bandaríkjunum og á Norðurlöndunum mikið áhyggjuefni.

Það hefur í áranna rás verið staða hinsegin fólks á landsbyggðinni að gefast upp og flýja til höfuðborgarinnar. Þetta er ekkert séríslenskt fyrirbæri, svona er þetta alls staðar í heiminum. Fordómar þrífast best í fámenninu. Það er ekkert óeðlilegt við þetta, sækjast sér um líkir og hin djúpa þörf manneskjunnar til að tilheyra rekur okkur áfram. Þegar ég kom kom úr hinum svo kallaða skáp um 1995 þekkti ég ekki nokkra hinsegin manneskju. Það voru engar fyrirmyndir hér fyrir austan og þörf mín eftir samþykki og viðurkenningu rak mig eins og flest annað hinsegin fólk í borgina þar sem mér fannst ég eiga athvarf.

Mannauður í öllum regnbogans litum

Á Austurlandi búa rúmlega tíu þúsund einstaklingar. Oft hefur verið miðað við að 10% mannkyns sé hinsegin og því má vera ljóst að við erum stór partur af samfélaginu. Við höfum valið okkar dásamlega Austurland, hér viljum við búa. Við erum alls staðar og við erum alls konar. Við erum á öllum aldri, af öllum kynjum, kynþáttum og stéttum samfélagsins, fötluð og ófötluð. Við erum mannauður sem skiptir Austurland miklu máli. Við erum dýrmæt.

Þó að internetið hafi breytt miklu er það samt raunveruleiki hinsegin fólks að það á sér ekki athvarf hér á Austurlandi og úr því viljum við bæta.

Við erum hópur hinsegin fólks sem stefnir að stofnun félags, Hinsegin Austurland, um miðjan janúar. Hugmyndin er að geta boðið öllu hinsegin fólki á Austurlandi athvarf og skjól. Við viljum geta boðið upp á fræðslu, ráðgjöf og viðburði sem lúta að hinsegin málefnum.  Við viljum vera sýnileg og til staðar fyrir unga sem aldna sem telja sig þurfa á okkur að halda.

Ég hvet ykkur öll til að fylgjast vel með og taka vel á móti Hinsegin Austurlandi.

Höfundur er lögfræðingur.

Scroll to Top