Frétt af N4

Línur að skýrast í forvali VG í Norðausturkjördæmi
Karl Eskil Pálsson | 21.01.2021

Jódís Skúladóttir fulltrúi Vinstri grænna í sveitarstjórn Múlaþings sækist eftir öðru sæti á framboðslista flokksins við komandi alþingiskosningar. Efnt verður til forvals vegna uppstillingar á listann og rennur framboðsfrestur út á laugardaginn.
Steingrímur J. Sigfússon forseti Alþingis og þingmaður kjörædmisins hefur tilkynnt að hann ætli að hætta beinni stjórnmálaþátttöku en flokkurinn er nú með tvö þingsæti.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir sem var síðast í öðru sæti, vill fara fyrir listanum við komandi kosningar.
Óli Halldórsson sveitarstjórnarmaður í Norðurþingi hefur sömuleiðis tilkynnt að hann sækist eftir fyrsta sætinu.
Kári Gautason framkvæmdastjóri flokksins er ættaður frá Vopnafirði og vill vera „ofarlega á listanum.“
Jódís Skúladóttir bætist nú í hópinn en hún er í sveitarstjórn Múlaþings, hins nýja sveitarfélags á Austurlandi. Hún stefnir á annað sæti framboðslistans.
„Ég hef trú á því að ég sé að svara kalli um ferska vinda, nýliðun og sterka rödd fyrir allt kjördæmið og landið allt. Málefnin eru númer eitt og hef ég lagt mig fram við að standa vörð um þau,“ segir Jódís í tilkynningu.
Framboðsfrestur rennur út á miðnætti laugardaginn 23. janúar. Rafrænn kjörfundur verður svo dagana 13. til 15. febrúar.